Færsluflokkur: Tónlist
20.7.2007 | 20:57
Hármetalhornið #2
Bandaríska hljómsveitin Dokken er aðeins minna over the top en kollegar þeirra í Tigertailz. Hármetall eru þeir nú samt og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd virtust þeir ekki víla fyrir sér að ganga í magabolum með blásið hár.
Eins og Tigertailz, eru Dokken ennþá starfandi, en það er fátt sem getur komið gömlum hármetalhundum í helgan stein.
Dokken-lagið sem fékk að hljóma í hármetalhorninu í þætti 2 var sennilega þeirra þekktasta lag. Ber það nafnið Dream Warriors og fékk pláss í þriðju myndinni um Freddy Krueger, en myndin heitir einmitt A Nightmare on Elm Street 3: Dream Warriors.
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá óttaslegna Patriciu Arquette á flótta undan Freddy, og rekst hún á ýmsar kynjaskepnur, þ.á.m. gítarleikara Dokken sem stekkur út úr vegg og tekur brjálað gítarsóló á hauskúpugítar! Stórskemmtilegt alveg.
Dokken - Dream Warriors
Tónlist | Breytt 21.7.2007 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.7.2007 | 14:35
Hármetalhornið #1
Frá og með fyrsta þætti hafa hin löngu gleymdu hármetalbönd 9. áratugarins fengið sinn fasta dagskrárlið í Morðingjaútvarpinu. Dagskrárliðurinn nefnist einfaldlega Hármetalhornið, og í fyrsta þættinum var það hljómsveitin Tigertailz frá Wales sem var grafin upp úr plötukassanum.
Þeir eru ennþá starfandi samkvæmt heimildum, en sterkur grunur leikur á að minni fjármunum sé varið í snyrtivörur hjá þeim í dag en í den.
Hljómsveitin átti nú ekki marga slagara, en lagið þeirra Living Without You vakti athygli á þessum bleikhærðu hárþurrkum og hér má sjá alveg hreint frábært tónlistarvídeó við það lag.
Nánari upplýsingar um sveitina má finna hér
Tigertailz - Living Without You
Tónlist | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.7.2007 | 14:17
Morðingjaútvarpið á Blog.is
Jæja, ég var hættur að nenna að pimpa þennan þátt á blogginu mínu. Hér er líka þessi fína síða fyrir Morðingjaútvarpið. Fyrir þá sem hafa ekki hugmynd um hvað Morðingjaútvarpið er þá skal ég útskýra það í stuttu máli.
Á því herrans ári 2005 var hljómsveitin Morðingjarnir stofnuð, en meðlimir hennar voru allir áður í hljómsveitinni Dáðadrengir. Eins og nafnið gefur til kynna spila Morðingjarnir ógeðslegt hávaða-mannaskíts-ælupönk þrátt fyrir að vera á góðri leið með að verða miðaldra menn.
Það var svo fyrr í sumar sem hljómsveitin byrjaði með útvarpsþáttinn Morðingjaútvarpið á útvarpsstöðinni RVK FM og þegar þetta er skrifað eru 3 þættir búnir.
Á þessari síðu verður allskonar sorp upp um alla veggi, ýmis fróðleikur um tónlist og þáttinn og margt fleira. Ef veður leyfir verður síðan uppfærð rosalega oft og þið munuð engjast um úr hlátri og aðdáun á ævintýrum Morðingjanna í Morðingjaútvarpinu.
Kveðja,
Haukur Morðingi
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)